SAKMINJASAFNIÐ
1sta sýning
Opnun laugardaginn 19. mars kl. 17:00
Opið 20. til 26. mars 2016 frá kl. 17:00 til 19:00
settu öll þessi brot
saman ef viltu finna
það sem engum reynist þó hollt
né hamingjudrjúgt að sinna
en sjáirðu hvert stefnir hvar
þarftu síður að kvíða
við vorum öll þarna hvert og eitt
þetta kvöld á dráttarbrautinni
hvað sem það átti að þýða
— Megas
SAKMINJASAFNIÐ er ótímabundið verkefni sem sett var á fót árið 2015. Safnið hefur í það minnsta þríþættan tilgang og tilverugrundvöll: 1.) söfnun, sköpun, varðveislu, greiningu, útgáfu og sýningu sakminja; 2.) endurskilgreiningu, opnun og útvíkkun á merkingu orðsins sakminjar; 3.) aktíft viðnám við allt að því algjörri einokun ríkisvaldsins á þeim gjörðum sem taldir eru upp í fyrsta liðnum. Safnið á sér ekkert varanlegt sýningarrými og mun forsprakki þess og sýningasóknari (e. prosecurator) því opna lítil og tímabundin útibú hér og þar og annarstaðar — óreglulega fremur en reglulega.
Fyrsta sýning safnsins vex upp úr niðursettu rifbeini sígildrar grýlu: sakamáls sem kennt er við tvo horfna Einarssyni — þá Guðmund og Geirfinn. Um er að ræða huglæga jafnt sem efnislega mósaíkmynd af lauslega afmörkuðum en um leið nátengdum flötum málsins. Innan rammans mætast meðal annars leirhausinn margfrægi (og margframleiddi?) sem öðlaðist sjálfstætt líf og síðar meir sérstakan heiðursess í sakvitund martraðaþjakaðrar þjóðar; urðarmáninn í vélinni sem flaug inn á sviðið fyrir tilstilli krana, hnýtti hitt og hnoðaði þetta, lét sig svo skrauthverfa lóðrétt niður skíðahlíðar orðaskortsins; maðurinn í lakinu, lekandinn í minninu, léreftsvafðar minjarnar í vörðum kjöllurum laganna; minningar sem filmubrot, ljósmyndir sem gaddavír, gróðursömpl sem sönnunargögn, og fangelsaðar setningar sem ævarandi mónúment um ægifegurð fáránleikans.
Snorri Páll (Jónsson Úlfhildason) er skáld og slitamaður, fæddur í Reykjavík árið 1987 á níunda síðasta sjónvarpslausa fimmtudeginum. Fyrsta ljóðabók hans, LENGIST Í TAUMNUM, kom út árið 2014. Sama ár stóð hann ásamt Steinunni Gunnlaugsdóttur að halarófu sýninga og atburða undir nafninu EF TIL VILL SEK þar sem þau sýndu myndbandsverk, gjörninga og skúlptúra víðsvega í Reykjavík. Síðustu misserin hefur hann einna helst ástundað fuglaframleiðslu, logsuðukveðskap og malbiksfléttun.
______________________
Ekkisens: www.ekkisens.com
Snorri Páll: www.wheelofwork.org
Sakminjasafnið (tímabundið vefsvæði): http://www.ohproject.org/?tbl=the-museum-of-criminal-remnants
Fangelsaðar setningar og ægifegurð fáránleikans
Fyrsta sýning Sakminjasafnsins opnuð í Ekkisens – Snorri Páll skapar mósaíkmynd af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

Snorri Páll Sýningasóknari (e. Prosecurator) Sakminjasafnsins veltir fyrir sér Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í fyrstu sýningu safnsins.
„Sakminjar eru hluti af menningararfi, ekkert síður en byggingarlist, áthefðir og bragarhættir,“ segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, forsprakki Sakminjasafnsins, en safnið verður opnað í fyrsta skipti á sýningu sem stendur nú yfir í listarýminu Ekkisens.
Sýningin notast við minjar tengdar, og er einhvers konar hugræn kortlagning á, einu alræmdasta sakamáli Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Ekki bara bundið við beintengda fleti sakamála
„Frá hefðbundnu sjónarhorni eru sakminjar fyrst og fremst einhvers konar efnisleg sönnunargögn um framinn glæp sem og/eða framkvæmda rannsókn, saksókn og refsingu: hin ýmsu tæki og tól til framkvæmdar bæði glæpa og lögreglustarfa, lífsýni eða önnur ummerki þess sem fremur glæpinn, gögn unnin upp úr njósnum rannsóknaraðila um meintan sakamann, og svo framvegis. Að mínu mati er fyrirbærið þó alls ekki bundið við þessa beintengdu fleti sakamála. Skáldsögur, ljóð, listaverk, kvikmyndir, viðtöl og önnur fjölmiðlaumfjöllun – allt kemst þetta fyrir undir sakminjahattinum,“ útskýrir Snorri Páll, sem er titlaður sýningasóknari (e. prosecurator) Sakminjasafnsins.
„Ágætis dæmi er Ævisaga Davíðs, skáldsaga Péturs Eggerz, sem var túlkur þýska lögreglumannsins Karls Schütz sem „sjanghæaður“ var til Íslands til að klára rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, en í henni er að finna upplýsingar sem kallast beint á við upplýsingar úr rannsóknargögnum málsins – og í einhverjum tilfellum áhugaverðar viðbætur. Í Dráttarbrautinni, lagi Rúnars Júlíussonar við texta Megasar, tekur sá síðarnefndi sér stöðu vitnis og gerir tilraun til að ljóstra upp um hverjir – ef einhverjir – voru í dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur Einarsson hvarf. Ferlið við endurgerð Ólafar Nordal á landsþekktu styttunni Leirfinni, í tengslum við listsýningu á Þingvöllum árið 2000, kallaði fram athyglisverðar upplýsingar um styttuna og meðferð hennar í gegnum árin. Einnig má nefna blaðaviðtöl við sakborninga og dómþola, leikrit og heimilda- og kvikmyndir byggðar á sakamálum – og þannig mætti endalaust áfram telja,“ segir hann.
Oftast unnið út frá skilgreiningu ríkisvaldsins
Snorri Páll segir markmið Sakminjasafnsins vera að safna, skapa, varðveita, greina, gefa út og sýna slíkar sakminjar, auk þess að að endurskilgreina, opna og víkka út merkingu hugtaksins í „aktífu“ viðnámi við allt að því algjöra einokun ríkisvaldsins á þessum gjörðum. Hann segir að safnið muni opna lítil og tímabundin útibú við og við, og nálgun safnsins á minjarnar verði listræn frekar en fræðileg – þannig verði í raun unnið með meðvitaða eða ómeðvitaða fagurfræði rannsóknarlögreglunnar.
„Til eru söfn víða um heimin – flest lokuð öðrum en lögreglumönnum, lögmönnum og stöku leikmönnum – sem hýsa sakminjar, en þá einungis út frá skilgreiningu ríkisvaldsins. Lundúnalögreglan rekur eitt slíkt safn og er hluti af því reyndar aðgengilegur þessa dagana í Museum of London, en þar er augljóslega horft á fyrirbærið út frá sjónarhóli lögreglunnar – réttara sagt ofan úr efstu lögum stigveldisins sem við búum við. En sakminjar eru, eins og annar menningararfur, ekki einkamál þess marghöfða líkama sem býr yfir réttinum til valdbeitingar – réttinum til handtöku, rannsóknar, saksóknar, dómsuppkvaðningar og refsingar. Þvert á móti eiga einstaklingar óhikað að vinna með þennan anga menningararfsins út frá listrænu jafnt sem fræðilegu sjónarhorni – og það á sem anarkískastan máta: það er að segja í andstöðu við þær huglægu og efnislegu hindranir sem slíkri vinnu eru oft settar,“ segir Snorri Páll
Fagurfræði sakamála og kóreógrafía réttarkerfisins
Hvað er svona áhugavert við sakminjar og af hverju ættum við að veita þessu fyrirbæri einhverja sérstaka athygli?
„Í fyrsta lagi eru sakamál einstaklega áhugaverð birtingarmynd samskipta og/eða átaka annars vegar valdalausra einstaklinga og hins vegar stofnana sem lögum og samfélagssáttmálum samkvæmt búa yfir gríðarmiklu valdi. Sú togstreita og flókna „dýnamík“ sem birtist í slíkum átökum er fær um að kalla fram virkilega skýrar og sterkar stúdíur um áskoranir sem mæta manninum á öllum sviðum tilverunnar: mannleg samskipti, beitingu valds, valdaójafnvægi, strategíska nálgun og hugsun, sjálfsbjargarviðleitni, andóf og svo mætti lengi telja. Í öðru lagi get ég nefnt hina ýmsu og ólíku fagurfræði sakamála, allt frá aðferðafræði við framkvæmd glæpa til tungumáls, myndmáls og kóreógrafíu réttarkerfisins: hvernig tala einstaklingar og hegða sér í samskiptum við kerfið? Og öfugt: hver er stíll kerfisins – ef svo má að orði komast. Hvernig þróast þessi fagurfræði í takt við nýja tækni og aðferðir, bæði við framkvæmd glæpa og rannsókna?“ segir Snorri Páll.
„Í þriðja lagi er almennt litið svo á að sakamál og marglaga umgjörð þeirra eigi sér fyrst og fremst stað innan veggja réttarkerfisins: sakamál eigi ekki að flytja í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi, treysta skuli þartilgerðum stofnunum til réttlátrar málsmeðferðar, ekki eigi að deila við dómarana, og þar fram eftir götunum. En sama hvað fólki finnst um þann samfélagssáttmála – sé sammála honum eða ósammála – er staðreyndin sú að sakamál hafa nær undantekningarlaust víðtæk og margslungin áhrif á þau samfélög sem þau fara fram í. Þau smeygja sér inn í ólíka kima menningarinnar – frá kaffistofum til listasafna og bókasafna með viðkomu í þingsölum og undirheimunum. Slíkt er auðvitað afar áhugavert að reyna að kortleggja með einhverjum hætti.“
Mósaíkmynd af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu
Á fyrstu sýningu safnsins verða sakminjar notaðar til fagurfræðilegar kortlagningar eins allra alræmdasta sakamáli íslensks samtíma, Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.
„Áhrif málsins á íslenskt samfélag eru ómælanleg, en á sýningunni geri ég tilraun til að ramma inn sýnilegan og snertanlegan hluta þeirra. Á sýningunni blanda ég saman sakminjum í „hardkor“ hefðbundnum skilningi, fengnum beint upp úr gögnum málsins, sönnunargögnum um menningarleg áhrif málsins, og hugrænni kortlagningu sem byggð er á minni eigin rannsókn á málinu,“ segir Snorri, en kortlagninguna útskýrir hann á eftirfarandi hátt í kynningartexta sýningarinnar:
„Um er að ræða huglæga jafnt sem efnislega mósaíkmynd af lauslega afmörkuðum en um leið nátengdum flötum málsins. Innan rammans mætast meðal annars leirhausinn margfrægi (og margframleiddi?) sem öðlaðist sjálfstætt líf og síðar meir sérstakan heiðurssess í sakvitund martraðaþjakaðrar þjóðar; urðarmáninn í vélinni sem flaug inn á sviðið fyrir tilstilli krana, hnýtti hitt og hnoðaði þetta, lét sig svo skrauthverfa lóðrétt niður skíðahlíðar orðaskortsins; maðurinn í lakinu, lekandinn í minninu, léreftsvafðar minjarnar í vörðum kjöllurum laganna; minningar sem filmubrot, ljósmyndir sem gaddavír, gróðursömpl sem sönnunargögn, og fangelsaðar setningar sem ævarandi mónúment um ægifegurð fáránleikans.“
Rannsóknarskáldskapur – Sakminjasafnið í Ekkisens
Sirkustjaldid.is, 22. mars, 2016
Síðastliðinn föstudag opnaði Sakminjasafnið fyrstu sýningu sína í rými Ekkisens á Bergstaðastræti 25b. Snorri Páll (Jónsson Úlfhildarson) stendur fyrir sýningunni og titlar sig sýningasóknara (e. prosecurator) Sakminjasafnsins.
Sýningin stendur yfir 26. mars og er opin alla daga frá 17 – 19. Í dag kl 17 verður boðið upp á leiðsögn og á morgun verður lokahóf og ljóðalestur. Nánari upplýsingar er að finna hér.
Á Sakminjasafninu er boðið upp á breytilegar myndir af ásýnd svokallaðra Guðmundar og Geirfinnsmála. Í einu herberginu eru til dæmis nokkrar teikningar úr yfirheyrslum þar sem sakborningum í Guðmundar og Geirfinnsmálunum hafði verið gert að teikna upp atburðarásir sem þeir mundu ekki eftir að hafa tekið þátt í. Frekari rannsóknir hafa bent til þess að óvíst er að þessir atburðir hafi nokkurn tíma átt sér stað.
Þó meginviðfang sýningarinnar sé sett upp í niðurgröfnum kjallara Ekkisens á Bergstaðastræti, dreifir Sakminjasafnið úr sér, „óvænt inn í dagskrá“ listaflórunnar hér í Reykjavík. Ásamt því að vera virkur að setja inn efni á Facebook, tók sýningasóknari einnig þátt í ljóðakvöldi á Gauknum síðastliðinn laugardag. Anton Helgi Jónsson birti skoðun sína um lestur hans á Facebook:
„[…] Þegar leið á lesturinn rann það upp fyrir mér að textinn sem Snorri Páll [sýningasóknari] var að lesa fellur undir það sem er kallað found poetry eða fundinn skáldskapur; það sem hann las voru ekki eigin fantasíur heldur orðréttir textabútar úr dómskjölum sem voru sett saman í Geirfinnsmálinu. Það var nöturlegt að uppgötva þetta. Játning sem þóttist vera heilagur sannleikur á sínum tíma virtist vera fáránlegur uppspuni þegar hún hljómaði úr munni skáldsins í gærkvöldi.”
Myndlyklar sýningasóknara
Ég mæli eindregið með því að heimsækja Ekkisens og þá helst sækjast eftir samtali við sýningasóknarann, en með verklegri tilvísun í myndlyklana sem hanga á veggjunum myndar hann áhugaverða frásögn sem vekur sterk hugrenningatengsl hjá þeim sem hlusta.
Undir þýðum tónum dægurlaga sem öll tengjast sakamálunum, bendir Snorri á myndir, bækur og textabrot úr ýmsum áttum meðan hann myndar sýn á atburðarás sem virðist vera með öllu ómögulegt að finna réttan flöt á. Frásagnir hans af samanfléttuðu frásagnanetinu gefa mjög grafíska mynd af margvíslegum afleiðingum þessara sakamála.

Raunveruleiki eða skáldskapur?
Það vekur óhuggulegar tilfinningar að ímynda sér hvað raunveruleikinn hefur orðið fyrir miklu aðkasti frá höndum skáldskaparins. Það er þó ef til vill algeng aðferð sem er notuð við lausn sakamála. Rannsóknarlögreglan þarf að ímynda sér atburðarás út frá þeim gögnum sem þau hafa, og sjá fyrir sér aðstæður sem byggjast á fyrirliggjandi gögnum. (Kannski eru glæpasögur svona vinsælar út af því?) Saksóknari þarf að sýna fram á tilheyrandi málsgögn, sannanir og játningar til að færa rök fyrir því að sú saga sem honum hefur dottið í hug sé rétt. Það sem gerir umræddar glæpasögur á Sakminjasafninu óhuggulegar eru ítrekaðar játningar hjá fólki sem reyndust síðan vera falskar. Eftir einangrunarvistir og skuggalegar yfirheyrsluaðferðir voru sakborningarnir farnir að ímynda sér að sakirnar sem þeim voru bornar hafi í raun verið sannar, þó svo að enginn hafi munað neitt.
Snorri sagði mér dæmi af höfuðvitni sem var sóttur alla leið til Spánar til þess eins að sitja í varðhaldi á hótelherbergi þar til hann samþykkti að skrifa undir einhvers konar játningu um vitnisburð af atburði sem hann tengdist ekki neitt. Af atburði sem átti sér líklega ekki einu sinni stað.
Það má ætla að fáum þyki gaman að heyra um skáldaferil rannsóknarlögreglunnar, þar sem þeirra vinna hljóti að vera unnin með vísindalegum rannsóknum. Fólk sem aðhyllist vísindin er þó breyskt eins og annað, og ráðamenn í nafni ríkisvaldsins taka sér skáldaleyfi til að beygja sannleikann til þess eins að koma vandræðalegu máli undan. Hvað gerist ef játningar eru þvingaðar fram? Kerfisbáknið tekur játningunum fagnandi og kemur þeim þvinguðu fyrir í tilheyrandi afplánun.
Á hinn bóginn er svotil ekkert nýtt að taka til sín raunveruleikann og vinna með í skáldskapnum. Til eru skáld sem vinna aðallega á þeim mörkum. Munurinn á stöðu skáldsins og saksóknarans er sá að skáldið þarf ekki að þvinga fram játningar hjá saklausum einstaklingum til að bera fram sína uppdiktuðu frásögn. Skáldið þarf heldur ekki að þvinga fram játningar hjá höfuðvitnum til þess að staðfesta játningar sakborninganna.
Fáránlegt samband
Já, sambandið milli skáldskapar og veruleika getur vissulega verið fáránlegt. Fáránleiki sem vísar í báðar áttir. Umboðsmenn ríkisvaldsins nýttu sér skáldskapinn til að knýja fram einhvers konar úrskurð dómstóla sem rispaði djúp sár í líf saklausra einstaklinga.
Höfundur Íslands stígur hins vegar fram á baki skáldskapargyðjunnar og nýtir sér raunveruleikann til að knýja fram skáldskapinn. Lesendur hella í sig heillaðir skrumskældri raunasögu hins þögla vitnis og velta fyrir sér hvort sagan hafi kannski í alvörunni verið eins og skáldið skrifar?
Lengi lifi skáldskapurinn. Ekki síst þegar hann er notaður til að beygja raunveruleikann inn á þær brautir sem hentar framabraut rannsóknarskáldsins. Skítt með afleiðingarnar, svo lengi sem niðurstaðan skili einhverri niðurstöðu, úrskurði eða vel sóttu útgáfuhófi. Allt til að skila inn arðbærum vinnudegi.
Ólag á pennanum