Skynlistasafn, skóli og tilraunavinnustofa ||| Experimental Studio, Museum & School of Perceptive Art
Ár af lífsefa – Man | Steinunn Gunnlaugsdóttir
Laugardaginn 28. nóvember kl. 17:00 opnar sýning Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Ár af lífsefa – Man, í Ekkisens, Bergstaðarstræti 25B. Sýningin samanstendur af myndbands- og hljóðverkum sem takast á við lífsefann; þá grunn tilvistarspuringu hverrar mannskepnu hvort hún vilji lifa eða ekki. Og ef ekki – hvort hún velji að taka sitt eigið líf eða hrærast um í tilvistarangist.
Steinunn Gunnlaugsdóttir fæddist á síðustu öld á Íslandi. Hún útskrifaðist af Myndlistabraut Fjölbrautarskólans í Breiðholti árið 2003 og af Myndlistabraut Listaháskóla Íslands árið 2008. Veturinn 2013–2014 sótti hún fyrirlestra og vinnustofur í Ashkal Alwan, listamannarekinni menningarstofnun í Beirút, Líbanon.
Kjarninn í verkum Steinunnar eru tilvistarátök innra með hverri mannskepnu, togstreita og átök hennar við allar þær ytri formgerðir og kerfi sem umkringja hana – og/eða uppgjöf gagnvart þeim.