Hugskot
Lukka Sigurðardóttir
14. – 22. febrúar
2015
Á sýningunni fjallar Lukka um það sem gerist á bakvið tjöldin í hugarheim hennar þessa stundina. Efniviðir verkanna eru margskonar en Lukka vinnur í það efni sem hentar best hverju sinni og er efnisvalið því oft á tíðum óhefðbundið.
Á sýningunni eru meðal annars innsetning úr kynlífsleikföngum, video, skúlptúr og ljósmyndir. Hún vinnur út frá ástinni í þessum verkum eins og oft áður og komþað sér því vel að hafa opnunina á sjálfan Valentínusardaginn.
VÍSIR Vinnur innsetningu úr kynlífsleikföngum 14. febrúar 2015
http://www.visir.is/innsetning-ur-kynlifsleikfongum/article/2015702149979
Meðal verka á sýningunni Hugskot eftir myndlistarkonuna Lukku Sigurðardóttur er innsetning úr kynlífsleikföngum. „Ég er að gera svona „phallus“ altari, en sýningin í heild sinni er frekar kynferðisleg,“ segir Lukka.
Við undirbúning á sýningunni leitaði hún í hugarfylgsni sín en hún segir þá vinnu ólíka þeirri sem hún hefur áður lagt í. „Ég er að vinna svolítið öðruvísi núna en ég geri vanalega. Ákvað að kíkja aðeins um í hausnum á mér, fara í bakherbergin og fjalla um það sem ég fann þar,“ segir Lukka og hlær.
„Ég er alveg pínku feimin með þetta, en fyrst ég ákvað að gera þetta þá ákvað ég bara að taka þetta alla leið,“ segir hún hress um altarið og bætir við: „Þetta er mjög grafískt, bara tilbeiðsla til „phallusins“. Ég var úti í París um daginn og keypti efniviðinn þar,“ segir Lukka og bætir við að Adam og Eva megastore sé einnig styrktaraðili sýningarinnar.
Altarið er þó ekki eina verkið á sýningunni heldur stendur hún einnig saman af vídeóverki, skúlptúr úr náttkjólum og ljósmyndum en þemað segir Lukka vera þrá og nautn og því vel við hæfi að sýningin sé opnuð í dag, á sjálfan Valentínusardaginn.
Hugskot verður opnuð klukkan fimm í galleríi Ekkisens sem er í kjallaranum á Bergstaðastræti 25b og verður hún opin vikulangt frá klukkan fjögur til átta.
Séð og Heyrt Þrá og nautn Lukku alla leið 15. febrúar 2015
http://sedogheyrt.is/thra-og-nautn-lukku-alla-leid/
Lukka Sigurðardóttir(1980) útskrifaðist með BA gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2014. Hún stundaði áður nám m.a. í fata og iðnhönnun auk tré- og járnsmíði við Iðnskóla Hafnafjarðar. Lukka hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Hún er einn meðlima Algera stúdíó og hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta plötuumslagið TAKK með Sigur Rós.
Sýningin er fyrsta einkasýning Lukku eftir útskrift.