2015ergildra var stofnað sem ljóðagallerí á netinu og er í eigu Ingólfs Gíslasonar og lomma. Þar birtast reglulega ljóð eftir ýmis ljóðskáld, eins og sjá má hér: http://2015ergildra.skjabjort.is/
Nú leggja þeir einnig gildrur í Ekkisens! Áhugasamir geta því framvegis nálgast ljóðin á tveimur stöðum, á vefsíðunni 2015ergildra og í ljóðaútibúi þeirra í Ekkisens. En því hefur verið komið fyrir í glerskáp eldshússins.
Af þessu tilefni verður haldinn ljóðaupplestur klukkan 20:00, laugardaginn 24. janúar þar sem eftirfarandi skáld koma fram:
Ingólfur Gíslason
Júlía Margrét Einarsdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir
lommi
__________________________________________________________
UM GALLERÍIÐ:
Margföldunartaflan er gildra, lýðræðið er gildra, málfrelsið er gildra.
Ljóðum hefur nú verið útvistað til til að tryggja öryggi heimilanna í landinu, hámarka skilvirkni þeirra og hagkvæmni.
Vantar þig lesendur? Er erfitt að Tindra?
Við bjóðum skáldum upp á aðstöðu til að niðurhala lesendum og lesendum stað til veiðast í gildru.
Ertu orðin leið/ur á semi-sæmilegum ljóðum á barnum?
Vantar þig áreiðanlegan þynnkumagnara?
Styggðu ekki steggina með loðnum leggjum, farðu ekki hljóðlega í nóttina
vondu, ljóðaðu þig upp, beibí, og koddu á 2015ergildra.skjabjort.is
Við bjóðum upp á fimm í fötu, í því umhverfi sem hentar þér best, í leik eða starfi,
við þjónustustörf eða fjöldamorð, skólafólk og flóttafólk. Allir.
Komið nær, komið inn, það er ekkert að óttast, og hvergi skemmtilegra að vera.
2015ergildra.skjabjort.is
__________________________________________________________
Jón Örn Loðmfjörð (Lommi) er gagnskáld og þverlistamaður. Eftir hann liggja ljóðabækurnar Gengismunur og Síðasta ljóðabók Sjóns (ásamt Arngrími Vídalín), auk þess sem hann hefur tekið þátt í ýmsum sýningum, m.a. sýningunni Koddu.
Ingólfur Gíslason er ljóðskáld og stærðfræðikennari og doktorsnemi. Hann hefur gefið út þrjár ljóðabækur og eina kennslubók í stærðfræði. Ljóð eftir hann hafa verið þýdd og birt í ljóðasöfnum og tímaritum á ensku, þýsku og dönsku. Auk þess hefur hann flutt útvarpspistla í Víðsjá á rás 1 og birt ljóð og greinar í tímaritum um stærðfræðikennslu, barnamenningu, og bókmenntir.