HÁVAÐI II 17. júní – 30. júní
Tuttugu listamenn verða með Hávaða á 17.júní. Hávaðinn hefst 17:00 í viðburðarýminu Ekkisens, Bergstaðastræti 25B og verður í gangi til 21:00. Einnig mun óvæntur Hávaði eiga sér stað víða um miðbæinn og netheimum á tímabilinu 17. – 30. júní. Manifesto sýningarinnar er fáanlegt á rafrænu formi hér.
Þátttakendur:
Andrea Ágúst Aðalsteinsdóttir, Anton Logi Ólafsson, Arnar Birgisson, Clara Bro Uerkvitz, Erik Hirt, Freyja Eilíf, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Guðbjartur Þór Sævarsson, Heiðrún Gréta Viktorsdóttir, Hjálmar Guðmundsson, lommi, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Katrína Mogensen, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Nína Óskarsdóttir, Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Sunneva Ása Weisshappel, Una Björk Sigurðardóttir.
Hér má sjá myndasafn frá opnun sýningarinnar.
Er íslenski þjóðfáninn úrelt tákn?
Árný Elínborg skrifar:
Hávaði II er samsýning tuttugu listamanna þar sem þjóðlegum táknum er ögrað. Hún var opnuð á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní í galleríinu Ekkisens og stendur yfir til 30. júní. Íslenski fáninn fær mestu útreiðina á þessu 100 ára aldursári sínu, en einnig er að finna gagnrýni á stjórnvöld og íslenska menningu. Á opnun sýningarinnar mátti svo upplifa ýmsa gjörninga. Sýningin er framhald af Hávaða I, sýningu sem haldin við kjör núverandi ríkisstjórnar árið 2013.
Íslenskar hefðir skopstældar
Opnunin og mótmælin við hátíðarræðu forsætisráðherra þennan sama dag virtust mynda eina heild. Erfitt er að rjúfa þau tengsl í umfjöllun um sýninguna. Titill sýningarinnar, Hávaði II, vísar beint í mótmælin en mótmælendur voru einmitt hvattir til þess að trufla hátíðarhöldin með hávaða. Rými sýningar og mótmæla runnu líka saman. Listamenn Hávaða II voru til dæmis þátttakendur/leikendur í mótmælunum, klæddir í lúðrasveitarjakka og með trommur, mögulega til að skopstæla hátíðarhöldin. Eitt verk sýningarinnar, Bónus-kerra með eldi, var svo dregið með á mótmælin og þar með fært frá rými sýningar í gjörning mótmælanna. Pólitík er því mikilvægt viðgangsefni sýningarinnar þó ekki sé um flokkapólitík að ræða. Hún ræðst á fánann, tákn þjóðarhugtaksins, og aðrar hefðir.
Sigmundur Davíð leikur í gjörningi
Mótmælin á Austurvelli 17. júní voru líkt og listrænn gjörningur gegn ríkisstjórninni og öllu stjórnkerfinu. Gjörningurinn átti sér stað í mikilvægustu hefð íslenskrar þjóðar og réðst því beint inn í þjóðarhugtakið. Þegar sýningin Hávaði II með gjörningum sínum og verkum tengdist því varð eins og Sigmundur Davíð yrði sjálfkrafa persóna í heildarverkinu. Hávær mótmæli fjöldans, þar sem slagorðið „Vanhæf ríkisstjórn“ ómaði yfir reglulegum trumbuslætti gróf undan hátíðleikanum og hefðunum á þessum degi lýðveldis Íslands. Sjálfur tók Sigmundur þátt í að skopstæla sjálfan sig þar sem hann stóð og flutti lofræðu um íslenska þjóðmenningu, samheldni og uppgang samfélagsins meðan að óánægjuraddir fjöldans dundu á honum og grófu undan orðum hans. Í myndskeiði RÚV mátti sjá mótmælendur í bakgrunninum hrista lykla og lyfta upp skiltum með kröfu um nýja stjórnarskrá. Fyrir vikið varð Sigmundur Davíð enn hlægilegri með staðlaða lofræðu sína.
Hefðir sem tákn fyrir stöðnun
Allt í einu varð sviðið í kringum styttu Jóns Sigurðssonar hjákátlegt. Hreyfingarlaus kórinn, prúðir skátarnir og kyrrstæð umgjörð hátíðarinnar urðu hálf undarleg og forneskjuleg við hliðina á lifandi og hávaðasömum mótmælendum sem öskruðu kröfu sína um breytingar. Á þessum degi þjóðar var ráðist á það sem þjóðlegum stjórnarflokkunum er heilagast, þjóðleg tákn. Ráðist var á hefðir sem eru umgjörð fyrir menningu, stjórnkerfi og stjórnvald. Hefðir hátíðarhalda sem varðar voru með lögregluvaldi og girðingum. En gjörningurinn tók allt niður af stalli, forsætisráðherra missti völd um stund fyrir fjöldanum. Orðræða hans um þjóðleikann varð innantóm og hefðirnar, virki valdsins, misstu mátt sinn.
Íslenski fáninn véfengdur
Í dag fagnar íslenski fáninn 100 ára afmæli sínu. Blár fáni á rauðum og hvítum krossi. Kross fyrir þjóð sem sameinast ekki öll um kristni. Bráðum mun hvíti liturinn jafnvel hafa misst vísun sína vegna loftslagsbreytinga sem núverandi ríkisstjórn sér sem tækifæri. Er fáninn ef til vill að verða merkingarlaus?
Í Ekkisens er að finna sýningu sem ögrar fánanum sem þjóðlegu tákni og er vel þess virði að kíkja á. Hún vekur upp spurningar um hver við erum sem þjóð og setur spurningarmerki við þjóðlegar hefðir og menningu.
Meðfylgjandi er myndbandsverk frá sýningunni þar sem hvítmáluð, nakin kona sveiflar sér í bláum og rauðum festingum eins og geðveil kona eða geðveill fáni. Annað myndbandsverk á sýningunni fylgir eftir íslenskum kvenmannsrassi og fána.
Greinin birtist á veðmiðlinum Sirkustjaldið 19. júní 2015.