Stærsti parturinn er unninn út frá hugmyndum um það sem leynist í náttúrunni, sérstaklega íslenskri náttúru. Eitthvað sem býr í hrauninu, klettunum og gjótunum, passar upp á okkur og kannski hrekkir okkur líka,“ segir Nína Óskarsdóttir myndlistarkona um steinþrykksverkin sem hún er að opna sýningu á.

Við stöndum inni í hinu óviðjafnanlega galleríi Ekkisens sem er í kjallara bakhúss við Bergstaðastræti. Gólfið er svo hreint að það er nánast guðlast að fara ekki úr skónum. „Við vorum að mála það í gærkveldi,“ útskýrir myndlistarkonan en segir alveg óhætt að ganga á því með skó á fótum.

Það eru samt listaverkin á veggjunum sem athyglin beinist að. Sum þeirra tengjast þjóðtrú Íslendinga enda kveðst Nína vilja sýna náttúrunni og vættum hennar virðingu. Önnur eru gerð til heiðurs konum og vinnuframlagi þeirra, ekki síst á ökrunum og á heimilunum, að sögn Nínu. Þar eru fléttur í hári áberandi, stundum abstrakt og stundum fígúratívar. „Rómantísk hugmynd um konurnar með síðu flétturnar og þann kvenlega kraft sem þær bjuggu yfir. Svolítið forn sýn á það hvernig allt var þegar fólk var í meiri snertingu við náttúruna en nú. Það er einhver orka sem kemur þaðan. Þú sérð það í mörgum myndum mínum,“ útskýrir listakonan sem gerir ýmsar tilraunir bæði með tækni og myndefni.

Nína útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2014 og hélt þá til Bretlands að læra steinþrykksfræði hjá Leicester Print Workshop. Segir þar um sambland af eðlis- og efnafræði að ræða og kemur með örstutta útgáfu af aðferðinni. „Stórir kalksteinar eru slípaðir niður, teiknuð á þá mynd, þeir síðan ættir og myndin svo prentuð á pappír í þar til gerðri pressu.“

Nína er nýflutt heim frá Bretlandi og verkin á sýningunni voru öll unnin þar. Hún kveðst ekki hafa tekið með sér kalkstein frá útlöndum heldur hafa aðstöðu hér í Íslenskri grafík til að iðka þessa list. „Svona steinar eru líka í Listaháskólanum og á nokkrum verkstæðum í einkaeigu. Þeir eru endurnýttir aftur og aftur.“